Helstu málaflokkar

HMS fer með eftirlits- og samræmingarhlutverk á sviði húsnæðis- og mannvirkjamála í samstarfi við sveitarfélög. HMS starfar eftir 14 lagabálkum, 40 reglugerðum á 16 málefnasviðum.  Megin málaflokkar á ábyrgð HMS eru:

  1. Eftirlit með mannvirkjagerð og mannvirkjaskrá
  2. Húsnæðisáætlanir og íbúðaþarfagreining
  3. Brunavarnaáætlanir og slökkvilið
  4. Fjármögnun hagkvæms húsnæðis og stefnumótun
  5. Eftirlit með rafmagnsöryggi og markaðseftirlit
  6. Húsnæðisbætur og leigumarkaður
  7. Rannsóknir og fræðsla

Stefnumótunarvinna HMS tekur mið af stefnumótun ríkisaðila líkt og hún er skilgreind í 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015. Í tengslum við þá vinnu setti HMS sér 6 markmið, 18 mælikvarða og 18 verkefni sem unnið var að á árinu 2021.

Markmið HMS úr stefnumótun ríkisaðila

  1. Öryggi í húsnæðismálum: Aukið aðgengi að hagkvæmu og heilnæmu húsnæði
  2. Skilvirkt byggingareftirlit og samræming byggingareftirlits
  3. Mann- og eignatjón í bruna í lágmarki
  4. Aukin skilvirkni, bætt þjónusta við almenning og stafrænar lausnir
  5. Árangursrík fyrirtækjamenning og heilsusamlegt starfsumhverfi
  6. Draga úr umhverfisáhrifum.

Árið 2021 voru 18 verkefni tengd stefnumótun ríkisaðila unnin í gegnum stjórnkerfi og verkefnastýringarkerfi HMS. 

Í þessum verkefnum var áhersla m.a lögð á þróun rafrænna lausna sem eru til þess fallnar að bæta aðgengi að upplýsingum og heildarsýn á málaflokka. Nýr vefur var kynntur með bættu aðgengi að byggingareglugerð á rafrænu formi og ný Brunagátt innleidd til að ná fram heildstæðri sýn á stöðu slökkviliða á landsvísu. Nýju húsnæðisáætlanakerfi var komið á laggirnar sem dregur fram stöðu húsnæðismála í sveitarfélögum landsins ásamt nýrri mannvirkjaskrá  og byggingargátt  þar sem nú er hægt að nálgast í fyrsta sinn yfirlit yfir allar byggingar í landinu. Síðast en ekki síst stofnaði HMS Ask-Mannvirkjarannsóknarsjóð til að efla rannsóknir og nýsköpun í mannvirkjagerð.

Á árinu 2021  var lokið við að gera Umhverfis loftslagsstefnu HMS og aðgerðaráætlun um innleiðingu stefnunnar. Niðurstöður Græns bókhalds HMS fyrir árið sýndu 24% samdrátt miðað við upphafsárið 2019 og hefur losun HMS frá starfsemi ársins verið kolefnisjöfnuð með gróðursetningu trjáa.

Starfsáherslur og lykilverkefni

Út frá hlutverki, stefnu og framtíðarsýn HMS eru útbúnar árlegar starfsáherslur stofnunarinnar og starfsáætlanir einstakra sviða. Í framhaldinu eru ákveðin lykilverkefni til að fylgja áherslunum eftir og tryggir frammistöðustjórnunarkerfi HMS framgang verkefnanna innan ársins. Á árinu var mikil áhersla lögð á að styrkja virðisaukandi þjónustu við almenning með innleiðingu á þjónustustefnu sem unnin var með þátttöku allra starfsmanna og þjónustumælingum. Í fyrsta sinn hóf HMS mælingar á hlutfalli stöðugilda í þjónustu við almenning og er það hlutfall mælt reglulega

Stjórnkerfi HMS

Mannauður

Hjá HMS störfuðu í árslok 2021 alls 115 starfsmenn í 113 stöðugildum. Meðalfjöldi stöðugilda á árinu var 110. Gengið var frá 32 ráðningum að sumarráðningum meðtöldum á árinu.

 

Hagaðilar

Helstu hagaðilar HMS 2020

Þjónustuver og móttaka

Þjónustuver og móttaka HMS tekur á móti viðskiptavinum á öllum þremur starfstöðvum HMS, Akureyri, Reykjavík og Sauðárkróki. Við þjónustum alla þá sem eiga erindi við HMS og kappkostum að allir fái úrlausn sinna mála fljótt og vel með því tengja saman viðskiptavini og starfsmenn teyma HMS. 

Okkar tilgangur er að samfella sé í þeirri þjónustu sem við erum að veita og að viðskiptavinir fái gott viðmót og finni að þeir skipti máli.

Við leggjum áherslu á að vera leiðandi í opinberri þjónustu, sýnum vönduð og umhverfisvæn vinnubrögð sem stuðla að aukinni notkun á rafrænum lausnum.

Gildi HMS

Með því að tileinka okkur þennan hugsunarhátt verðum við leiðandi í opinberri þjónustu

Skrefi á undan

Mikilvægasta hlutverk okkar er þjónusta við almenning, sem við veitum af áhuga og krafti. Öflugt starfsfólk með metnað til að veita virðisaukandi þjónustu mótar árangursríka vinnustaðamenningu.

Einföldum lífið

Við fögnum tækifærinu til að leita lausna, leiðbeina og miðla. Við erum stolt af sérfræðiþekkingu okkar og leggjum áherslu á að skapa virði fyrir samfélagið.

Sýnum hugrekki

Við erum óhrædd við að mynda okkur skoðun, framkvæma og standa með ákvörðunum okkar. Með því að taka ábyrgð á verkefnum og vinna þau af metnaði tryggjum við árangur.

Hugsum lengra

Við erum í fararbroddi í framþróun þeirra málefnasviða sem við berum ábyrgð á. Við lítum þau gagnrýnum augum, hugsum í lausnum og innleiðum nýjungar í þágu almennings.

Þjónustuloforð HMS

Stjórnkerfi HMS byggir á teymisskipulagi þar sem hvert teymi hefur skýrt hlutverk í þjónustu við almenning. Áhersla HMS á að vera leiðandi í opinberri þjónustu endurspeglast í stjórnkerfinu þar sem þjónusta er miðpunkturinn og öll teymi skilgreina viðskiptavini sína, verkið sem þarf að vinna og æskilegan árangur. 

Viðbragðsflýtir

Við sjáum til þess að þörfum viðskiptavina sé mætt með viðunandi hraða.

Fagþekking

Við stuðlum að því að starfsfólk hafi fullnægjandi þekkingu og miðli henni af skýrleika til viðskiptavina.

Áreiðanleiki

Við tryggjum að viðskiptavinir geti treyst loforðum okkar, tímasetningum og réttleika þeirra upplýsinga sem við veitum.

Hugsum lengra

Við sýnum öllum viðskiptavinum áhuga, kurteisi, virðingu og traust.