Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Lykilverkefni

Út frá hlutverki, stefnu og framtíðarsýn HMS eru útbúnar árlegar starfsáherslur stofnunarinnar og starfsáætlun einstakra sviða. Í framhaldinu eru ákveðin lykilverkefni til að fylgja áherslunum eftir og tryggir frammistöðustjórnunarkerfi HMS framgang verkefnanna innan ársins.

Hagdeild HMS

Mánaðarskýrslur

Hagdeild HMS gefur mánaðarlega út skýrslur um húsnæðismarkaðinn. Þar er að finna samantekt á öllu því helsta sem er að gerast á fasteignamarkaði, leigumarkaði, lánamarkaði og byggingamarkaði.

Mikið líf og fjör var á fasteignamarkaði á árinu 2021 og því biðu markaðsaðilar gjarnan í ofvæni eftir útgáfu mánaðarskýrslunnar til að fá fregnir af helstu vendingum á markaði. Húsnæðisverð hækkaði ansi hratt, sífellt var slegið met í stuttum meðalsölutíma og aldrei áður hafa eins margar íbúðir farið á yfir ásettu verði. Þessar fregnir ásamt ýmsum öðrum upplýsingum er að finna í skýrslunum sem er gefin út af hagdeild HMS.

Mannvirkjaskrá

Hafin var vinna við mannvirkjaskrá á árinu og lokið við fyrsta hluta hennar með smíði gagnagrunns og viðmóta fyrir almenning jafnt sem starfsmenn HMS. Nær allar byggingar, bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði á landinu hafa nú verið skráð í grunninn þar sem finna má margvíslegar upplýsingar um mannvirkin svo sem byggingaleyfi, úttektir og  auk staðsetningar á korti eða loftmynd og aðgengi að teikningum. Byggingagáttin er hluti af Mannvirkjaskrá sem er viðmót til að skrá áfangaúttektir byggingastjóra og stöðuskoðanir byggingafulltrúa.

Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga

Eitt af hlutverkum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er að halda utan um og aðstoða sveitarfélögin við gerð húsnæðisáætlana. Hlutverk húsnæðisáætlana er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til skemmri og lengri tíma. 

Á árinu var hafin vinna við að gera allar húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna rafrænar. Nú þegar hefur tæplega helmingur sveitarfélaga skilað inn rafrænni húsnæðisáætlun.

Stafrænar húsnæðisáætlanir

Askur

Askur mannvirkjarannsóknarsjóður var stofnaður á árinu 2021 til að styrkja rannsóknir í mannvirkjagerð, en HMS fer með úthlutun styrkja. Styrkir eru veittir til mannvirkja­rannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskor­unum á sviði mannvirkjagerðar.

Í fyrstu úthlutun bárust alls 40 umsóknir, af þeim hlutu 23 styrk. Samtals var sótt um rúmlega 450 milljónir kr. í styrk en úthlutunin hljóðaði upp á 95 milljónir kr.

Umsóknir ársins 2021

Flokkun mannvirkja

Byggingarvettvangur, samstarfsvettvangur stjórnvalda og hagsmunaaðila, lagði til í lok árs 2019 innleiðingu flokkunar mannvirkja að norrænni fyrirmynd. Markmiðið var að einfalda og efla eftirlit með mannvirkjagerð og gera það skilvirkara.

Í desember 2020 var lögum um mannvirki breytt og kveðið á um að flokka ætti mannvirki í byggingarreglugerð. Í mars 2021 skipaði ráðherra starfshóp til að vinna drög að reglugerð um flokkun. Útfærsla flokkunarinnar var því gerð með virkri þátttöku hagsmunaaðila en var hún unnin undir handleiðslu HMS. Eftirtaldir aðilar komu að samstarfinu: HMS, SI, SÍS, SHS, AI, Byggingavettvangur og  Félagsmálaráðuneytið.

Flokkunin byggist á meginreglu sem ákvarðast af flækjustigi hönnunar, samfélagslegu mikilvægi, hættu á manntjóni og notkun. 

 

Vistvæn mannvirkjagerð

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) leggur áherslu á vistvæna mannvirkjagerð sem vegur þungt í starfsáherslum stofnunarinnar. Það er mikilvægt að unnið sé markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggingariðnaði og val á byggingarefni skiptir miklu máli í þeirri viðleitni.  Steypa er einn áhrifaríkustu þátta í kolefnissporum mannvirkjagerðar. Til að koma til móts við kröfur markaðarins um grænar lausnir sem og fyrirsjáanlegan skort á sementi vann HMS að tillögum að nýjum steinsteypukafla 2021.

Tillögur samráðshópsins miða því, meðal annars, að því að veita hönnuðum mannvirkja og framleiðendum steypu möguleika á því að takmarka kolefnisspor steypu. Hönnuðir hafa aukna möguleika að velja fleiri hlutaefni og bindiefni. Þá er opnað fyrir að styrkur steypu miðist við álag. Litið var til gildandi Evrópustaðla og framkvæmdar á norðurlöndunum við gerð reglnanna ásamt því að í samráðshópnum voru margir af fremstu sérfræðingum landsins í steypugerð og notkun. Tillögurnar voru vistvænar án þess að öryggi væri ógnað.

Þá er vert að geta þessa að HMS hefur tekið þátt í  verkefnastjórn verkefnisins Byggjum grænni framtíð, sem er samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífs um vistvænni mannvirkjagerð. Viðfangsefni þess er að meta losun byggingariðnaðarins, setja markmið um minni losun og skilgreina aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Hátt í 200 aðilar innan mannvirkjageirans hafa tekið þátt í verkefninu. Losun frá íslenskum byggingum hefur nú verið metin í fyrsta sinn, sett hafa verið markmið um 43% samdrátt á losun til 2030 og 74 aðgerðir skilgreindar – en þar af eru þegar 30% komnar á framkvæmdastig eða lokið.