Mannvirki

HMS vill stuðla að öflugra samstarfi byggingariðnaðarins, sveitarfélaga og stjórnvalda svo framtíðarsýn um betri byggingarmarkað megi verða að veruleika. Á þeirri vegferð horfum við meðal annars til bættrar gagnaöflunar, skilvirkara starfsumhverfis hagaðila, öflugra eftirlits og vistvænni mannvirkjagerðar.

Eftirlit með mannvirkjagerð

Stafræn vegferð

Eitt mikilvægasta verkefni HMS á sviði byggingarmála er samræming byggingareftirlits um allt land en ósamræmd framkvæmd og mismunandi túlkun reglna milli embætta hefur lengi verið ákveðið vandamál. Mannvirkjagerð er stór atvinnugrein á Íslandi sem veltir á þriðja hundrað milljörðum króna á hverju ári og þar ríkir mikil samkeppni. Því er afar mikilvægt að þar sitji allir við sama borð og eftirlitið sé samræmt og fyrirsjáanlegt. Aukinn kostnaður og óhagræði getur falist í óljósum og misvísandi kröfum af hálfu stjórnvalda auk þess sem slíkt getur leitt til mismunandi gæða mannvirkja eftir því hvar þau eru byggð. 

Meginverkefni HMS á sviði byggingarmála má skipta upp í þrjá jafn mikilvæga þætti sem ekki geta án hvors annars verið. Þeir eru: Í fyrsta lagi samræming á byggingareftirliti sveitarfélaga sem byggingarfulltrúar þeirra annast, í öðru lagi eftirlit með gæðastjórnunarkerfum fagaðila í mannvirkjagerð og í þriðja lagi markaðseftirlit með byggingarvörum.  Á árinu 2021 var stigið fyrsta skrefið í átt að stafrænu eftirliti með því að nýta nýja mannvirkjaskrá til þess að halda utan um stöðuskoðanir byggingafulltrúa og áfangaúttektir byggingastjóra.

Eftirlit með þremur ójúfanlegum þáttum í mannvirkjagerð

Samræming á eftirliti byggingafulltrúa

HMS hefur eftirlitshlutverk með starfi byggingafulltrúa og á árinu var lagt af stað í verkefni til að efla og samræma byggingareftirlit í landinu. Verkefnið fólst í því að koma á áhættumiðuðu eftirliti í formi stöðuskoðana byggingafulltrúa, þar sem leiðbeiningar voru endurskoðaðar. Byrjað var á að kynna leiðbeiningar um stöðuskoðanir og farið í heimsóknir til byggingarfulltrúa, þar sem farið var yfir framkvæmd og nothæfi stöðuskoðana í eftirliti byggingarfulltrúa og HMS. Fjöldi byggingafulltrúa sem framkvæma stöðuskoðanir og skila inn í mannvirkjaskrá HMS hefur aukist jafnt frá upphafi verkefnisins.

Virkniskoðanir gæðastjórnunarkerfa

Fagaðilar í mannvirkjagerð sem ætla að taka að sér byggingarleyfisskyld verk skulu hafa samþykkt gæðastjórnunarkerfi þannig að tryggt sé að starfsemi þeirra sé samkvæmt opinberum kröfum, lögum og reglugerðum. HMS hefur eftirlit með skráningunni og tæplega 400 skráningar á gæðastjórnunarkerfum fagaðila bárust á árinu og var stærstur hluti þeirra afgreiddur sem lokið og birt á vef.

HMS lagðist í það stóra verkefni á árinu að hafa aukið eftirlit með virkni gæðastjórnunarkerfa hjá u.þ.b. 1.250 byggingarstjórum auk fjölda annarra fagaðila á markaðnum. Stærsti hluti þeirra fagaðila sem starfa á markaði í dag hafði ekki látið framkvæma virkniúttekt á gæðastjórnunarkerfi sínu frá því að þeir hlutu samþykki og skráningu þess  árið 2015 þegar það varð lögbundin krafa. Því var farið í átak að gera kröfur um virkniúttektir á gæðakerfum fagaðila.

Löggildingar, starfsleyfi og eftirlit með fagaðilum

Eitt af hlutverkum HMS er að hafa eftirlit með störfum og þjónusta fagaðila í mannvirkjagerð en með fagaðilum er átt við byggingarstjóra, hönnuði, hönnunarstjóra og iðnmeistara. Eftirlitið felst m.a. í því að sjá til þess að framkvæmdar séu úttektir á gæða­stjórnunar­kerfum fagaðila í mannvirkjagerð. Gefa út starfsleyfi til byggingarstjóra, veita hönnuðum og iðnmeisturum löggildingu og halda lista á vef stofnunarinnar yfir sömu fagaðila sem hafa starfsleyfi og löggildingar.

Alls fengu 63 hönnuðir löggildingu á síðasta ári og voru haldin nokkur námskeið fyrir löggildingu mannvirkjahönnuða hjá Iðunni fræðslusetri.

 

Alls fengu 140 iðnmeistarar löggildingu á árinu.

Starfsleyfi

HMS sér einnig um útgáfu starfsleyfa þjónustuaðila brunavarna en til að mega þjónusta búnað sem tengist brunavörnum þarf starfsleyfi. Á árinu voru 36 starfsleyfi samþykkt.

HMS gefur út starfsleyfi byggingarstjóra. Byggingarstjórum er falið mikilvægt hlutverk í eftirliti með mannvirkjagerð en þeir annast  innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram. Samtals voru gefin út 226 ný og endurútgefin starfsleyfi byggingarstjóra á síðasta ári.

Markaðseftirlit byggingavara

Meðal verkefna HMS er markaðseftirlit með visthönnun og orkumerkingum orkutengdra vara.

  • Gerðar voru tvær kannanir á sviði visthönnunar á árinu 2021 í formi ábendinga.
  • Farið var í skoðun á orkumerkingum á kælitækjum, uppþvottavélum, þvottavélum, sambyggðum þvottavélum og þurrkurum.

Rafmagnsöryggi og markaðseftirlit

Markaðseftirlit raffanga

HMS annast markaðseftirlit raffanga, stofnunin fylgist með rafföngum á markaði, aflar á skipulegan hátt upplýsinga um þau og tekur við ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum.

 

Á árinu 2021 urðu heimsóknir til söluaðila raffanga alls 285 víðs vegar um land, þeir voru ýmist voru valdir af handahófi, sem hluti af sérstökum átaksverkefnum eða eftir ábendingar. Af þessum heimsóknum voru 179 til innflytjenda, 104 til smásala og 2 til framleiðanda raffanga.

A-skoðun stendur fyrir heimsókn á sölustað og skimun þeirra raffanga sem þar eru til sölu ásamt fræðslu til söluaðila um þær kröfur sem gerðar eru vegna markaðssetningar raffanga. B-skoðun er þegar frekari skoðun er þörf á rafföngum. Innlendar ábendingar berast frá almenningi og fagfólki.

Athugasemdum sem gerðar eru við öryggi raffanga er skipt í þrjá flokka:

  • Flokkur 1 eru minniháttar athugasemdir,
  • Flokkur 2 eru athugasemdir sem talið er að gætu valdið hættu
  • Flokkur 3 eru athugasemdir sem talið er að valdi beinni hættu. HMS setur sölubönn á rafföng sem alvarlegar athugasemdir eru gerðar við.