Húsnæðisstuðningur

Húsnæðisstuðningur er fjárhagslegur stuðningur hins opinbera við heimili til öflunar húsnæðis og er hann tengdur stöðu á húsnæðismarkaði. Húsnæðisstuðningur er veigamikill þáttur í aðkomu stjórnvalda að húsnæðismálum og hefur mikil áhrif á uppbyggingu húsnæðismarkaðar, byrði húsnæðiskostnaðar og tækifæri fólks til að velja á milli mismunandi búsetuforma.

Einstaklingar

Einstaklingar

Lán til einstaklinga

HMS veitir lán til einstaklinga til kaupa á hagkvæmum íbúðum til eigin nota. Við veitingu einstaklingslána er lögð áhersla á að aðstoða tekjulægri einstaklinga og fjölskyldur sem þarfnast fjármögnunar til að eignast  eigið heimili á viðráðanlegum kjörum. Stofnunin hefur það  hlutverk að annast lánveitingar til tekjulægri hópa en stofnuninni eru settar skorður varðandi hámarksfjárhæð lána. Í nóvember 2021 voru hámarkslán til íbúðakaupa hækkuð í 44 milljónir, en hafði áður verið  30 milljónir. Hámarkslán miðast eftir sem áður við 80% af kaupverði fasteignar og fasteignamat eignar má að hámarki vera 73,3 milljónir

Á miðju ári 2021 hóf HMS að bjóða viðskiptavinum fleiri valmöguleika varðandi fjármögnun íbúðahúsnæðis til eigin nota með nýjum óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum til 3ja ára í senn og nýjum verðtryggðum lánum á föstum vöxtum til 5 ára í senn.  Öll ný lán til einstaklinga hjá HMS eru nú án uppgreiðslugjalds. Áður voru eingöngu í boði verðtryggð lán á föstum vöxtum út lánstímann. Á árinu 2021 hefur HMS því breytt vöruframboði íbúðalána töluvert og þannig aukið möguleika fleiri viðskiptavina að eignast heimili með því að bjóða lægri greiðslubyrði og  hærra hámarkslán. Á árinu voru lánaðar 806 milljónir til einstaklinga til kaupa á 56 íbúðum.

Hlutdeildarlán

Úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga

HMS opnaði fyrir umsóknir um hlutdeildarlán 1. nóvember 2020 og hóf úthlutanir af krafti með tveimur úthlutunum fyrir lok ársins 2020. Áætlað er að úthluta hlutdeildarlánum sex sinnum á ári og lauk sjöttu úthlutun ársins 2021 um miðjan desember.  

Frá upphafi hafa 945 umsóknir um hlutdeildarlán borist og af þeim hafa 578 verið samþykktar,  samtals að fjárhæð um 4.900 m.kr.  

Einstaklingar

Húsnæðisbætur

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem eru ætlaðar til að aðstoða þá sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á hinum almenna leigumarkaði. HMS hefur umsjón með afgreiðslu húsnæðisbóta og tekur ákvarðanir um réttindi til þeirra.

Húsnæðisbætur eru mikilvægt stjórntæki fyrir stjórnvöld til þess að  stuðla að öryggi í húsnæðismálum og auka aðgengi að hagkvæmu húsnæði. Nákvæmni og réttleiki útreikninga húsnæðisbóta er mikilvægur mælikvarði  til þess að meta árangur starfseminnar.  Verklag við móttöku og vinnslu umsókna um húsnæðisbætur var betrumbætt á árinu 2021 með það að markmiði að tryggja að frávik í tekjuáætlunum kæmu fyrr í ljós.  Með breyttu verklagi hefur þjónusta við viðskiptavini verið aukin og samskipti við leigjendur eru mikil og regluleg með leiðbeiningarskyldu stjórnvalda að leiðarljósi.

Breytingar voru gerðar á frítekjumörkum í byrjun árs 2021. Hækkun frítekjumarka á milli ára nam 12%. Efri skerðingarmörk eru reiknuð út frá frítekjumörkum og hækkuðu um rúmlega 6%.

Yfirlit yfir húsnæðisbætur á árinu 2021:

  • Heildargreiðslur húsnæðisbóta: 6.921 milljarðar kr.
  • Meðaltal húsnæðisbóta á mánuði: 577 milljónir kr.
  • Fjöldi heimila sem fengu greiddar húsnæðisbætur: 17.149 heimili
  • Meðalgreiðsla húsnæðisbóta á mánuði: 33.276 kr.

Lán til lögaðila

Lögaðilar

Stofnframlög

Stofnframlög eru stuðningur í formi eiginfjár til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði, sem veitt eru annars vegar fyrir hönd ríkis í gegnum HMS og hins vegar frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem íbúðirnar koma til með að vera staðsettar í.

Stofnframlag ríkis er 18% og sveitarfélags 12%. Ríki er heimilt er að veita allt að 4% viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga, íbúðarhúsnæðis ætlað námsmönnum eða öryrkjum. Einnig er heimilt að veita sérstakt byggðaframlag vegna byggingar almennra íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging í búða hefur verið í lágmarki.

Stofnframlög eru veitt til bæði kaupa og byggingar á íbúðarhúsnæði með það að markmiði að tryggja tekju- og eignalágum aðgengi að viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði.

Úthlutun stofnframlaga 2021

  • Fjárhæð til úthlutunnar 2021: 3.433 milljarðar kr.
  • 40 umsóknir bárust, upphæð alls: 4.843 milljarðar kr.
  • Af 40 umsóknum voru 29 umsóknir samþykktar, 8 umsóknum var synjað og 3 umsóknir voru dregnar til baka.
  • Alls var 2.759 milljörðum kr. úthlutað til 29 verkefna fyrir 371 leiguíbúðum víðsvegar um landið.

 

Úthlutun stofnframlaga á tímabilinu 2016 - 2021

  • 18,3 milljörðum króna hefur verið úthlutað til byggingar og kaupa á leiguíbúðum
  • Alls til 2.993 íbúða og hafa 1.164 íbúðir þegar verið teknar í notkun
Lögaðilar

Lögaðilalán

HMS veitir lögaðilum og félögum sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, sveitarfélögum, stofnframlagshöfum og félagasamtökum lán til kaupa eða bygginga á hagkvæmum íbúðum. Skilyrði lánveitingar er að viðkomandi félag sé óhagnaðardrifið og hafi það sem langtímamarkmið að eiga og hafa umsjón með rekstri leiguíbúða.

Ný útlán til lögaðila árið 2021

Staða lánasafns 31. desember 2021

Húsnæðissjóður

Húsnæðissjóður

Árlega gert ráð fyrir félagslegum lánveitingum í fjárlögum og fjármálaáætlun ríkisins í gegnum sérstakan sjóð, Húsnæðissjóð, sem er í eigu ríkisins og undir yfirumsjón stjórnar HMS. Húsnæðissjóður hefur meðal annars það hlutverk að fjármagna lánveitingar á samfélagslegum forsendum samkvæmt lögum um húsnæðismál. Í lok árs 2021 nam lánasafn Húsnæðissjóðs um 135,7 milljörðum króna.

Húsnæðissjóður er lánasjóður í eigu og á ábyrgð ríkissjóðs sem hefur það hlutverk að fjármagna lánveitingar á samfélagslegum forsendum samkvæmt lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum og hluta reksturs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum stjórnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en stjórnun og dagleg umsýsla sjóðsins er í höndum stofnunarinnar sem jafnframt tekur ákvarðanir um einstaka lánveitingar.

Rekstur Húsnæðissjóðs gekk vel á árinu 2021. Ný útlán og uppgreiðslur voru svipuð og var lánasafn því svipað stórt í lok ársins og í upphafi þess eða um 136 milljarðar króna. Hreinar vaxtatekjur voru 2.438 millj. króna, rekstrargjöld voru 1.632 millj. króna. Vegna hagfelldra ytri aðstæðna var virðisaukning útlána 309 milljónir króna og afkoma jákvæð um 1.342 millj. króna. Afkoma umfram áætlanir við stofnun Húsnæðissjóðs skýrist af óvenjuhagstæðum virðisbreytingum en til lengri tíma er gert ráð fyrir að virðisrýrnun nemi um 500 milljónum króna á ári og væri þá afkoman jákvæð um u.þ.b. 500 milljónir króna.

HMS áætlar að ný útlán Húsnæðissjóðs á árinu 2022 verði um 15,2 milljarðar króna og er gerð nánari grein fyrir skiptingu þeirra eftir flokkum og tímabilum í skýrslunni. Þetta eru nokkuð minni útlán en gert var ráð í lánsfjáráætlun ársins og fjárlögum ársins 2022. Lækkunin skýrist m.a. af litlu framboði á íbúðum sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána.

Húsnæðissjóður er mikilvægt stjórntæki stjórnvalda á húsnæðismarkaði og getur gegnt lykilhlutverki í að styðja við nauðsynlega íbúðauppbyggingu til að tryggja húsnæðisöryggi og stöðugleika á íbúðamarkaði. Fjárhagslegur styrkur sjóðsins gæti gert honum kleift að styðja við uppbyggingu húsnæðis fyrir viðkvæma hópa og hugsanlega innviðauppbyggingu til að flýta fyrir fjölgun íbúða.

 

HMS hefur áætlað þörf fyrir lántökur hjá ríkissjóði vegna útlána á árunum 2020 til 2025. Gert er ráð fyrir að vænt útlán á árunum 2020 til 2025 nemi um 25 milljörðum króna á ári